Um Víkingaheima

Umgjörðina um skipið, sjálft sýningarhúsið, hannaði verðlaunaarkitektinn Guðmundur Jónsson og er það þannig úr garði gert að skipið nýtur sín sérlega vel. Gestir geta hvort heldur sem er gengið undir skipið eða horft ofan í það og jafnvel farið um borð og látið hugann bera sig á haf út enda blasir opið hafið við „áhafnarmeðlimum“ þar sem þeir standa í stafni Íslendings.

Sýningarhúsið var tekið í notkun árið 2009 og hafa sýningarnar í húsinu gengið í gegnum töluverða endurnýjun síðan þá. Þar er nú boðið upp á fimm sýningar sem allar tengjast víkingaöld með einum eða öðrum hætti. Þær gefa gestum einstakt tækifæri til að læra um sögu og lifnaðarhætti víkinga við Norður-Atlantshafið fyrir þúsund árum. Þá geta gestir notið stórbrotins útsýnis yfir Faxaflóa úr kaffihúsinu sem býður upp á kaffi og meðlæti og frítt netsamband. Minjagripir eru til sölu og í húsinu eru ráðstefnu- og móttökusalir fyrir ýmis tækifæri.