Víkingaskipið Íslendingur

Helsta aðdráttarafl Víkingaheima er án efa víkingaskipið Íslendingur sem smíðað var af skipasmiðnum og sjómanninum Gunnari Marel Eggertssyni sem jafnframt sigldi því til New York árið 2000 til að minnast ferðar Leifs Eiríkssonar til Vesturheims þúsund árum fyrr. Á sýningunni er ferðasöguna að finna auk mjög áhugaverðs tölvugerðs fræðsluefnis um eiginleika og smíði víkingaskipa.

Íslendingur

Víkingaskipið Íslendingur er völundarsmíð. Fyrirmynd þess er hið fræga víkingaskip sem fannst við fornleifauppgröft árið 1882 við Gauksstaði í Sandefjord í Noregi. Gauksstaðaskipið sem svo hefur verið kallað hafði varðveist vel. Talið er að skipið sé smíðað árið 870 um svipað leyti og landnám hófst á Íslandi.

Gunnar Marel Eggertsson hóf smíði víkingaskipsins í október 1994 og var hann að mestu leyti einn við smíðarnar en naut leiðsagnar víða frá. Skipið var sjósett í mars 1996.

Skipið er úr sérvalinni furu og eik úr skógum í Skandinavíu. Segl skipsins var framleitt í Danmörku. Við hönnum á stefni skipsins var horft til margra þátta. Hæð stefnisins nýttist á tvennan hátt, bæði fyrir drekahöfuð, sem þurfti að sjást víða að, og sem vörn gegn háum öldum á úthafinu. Íslendingur er 22,5 metrar á lengd og 5,3 metrar á breidd. Djúprista þess er 1,7 metrar, meðalhraði er 7 sjómílur, hámarkshraði 18 sjómílur.

Fyrst eftir að Íslendingur var sjósettur var skipið notað til að fræða íslensk skólabörn um víkingatímann. Ætlun Gunnars Marels Eggertssonar var þó ávallt sú að sigla skipinu til Bandaríkjanna árið 2000 til minningar um sjóferð Leifs Eiríkssonar en það ár var efnt til margvíslegra atburða vestanhafs til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá landnámi norræna manna. Allt þetta gekk eftir.

Gunnar Marel Eggertsson og áhöfn Íslendings lagði upp frá Reykjavík, á þjóðhátíðardaginn 17. júní  árið 2000. Fyrsti viðkomustaður var Búðardalur. Þar tók áhöfnin þátt í hátíðahöldum Dalamanna í tilefni af opnun Eiríksstaða í Haukadal, þar sem talið er að Eiríkur rauði, landnámsmaður Grænlands, hafi búið. Síðan var haldið af stað. Siglingin var löng, ströng og alls ekki áhættulaus. Úti af Hvarfi, suðurodda Grænlands, lenti skipið í hafís og þoku og var nokkur hætta á ferðum. Allt fór þó vel að lokum. Til Brattahlíðar á Grænlandi kom víkingaskipið 15. júlí þar sem efnt var til landafunda- og víkingahátíðar að viðstaddri Margréti Þórhildi Danadrottningu. Frá Brattahlíð var siglingunni svo haldið áfram. Mikið var um dýrðir þann 28. júlí þegar Íslendingur kom til L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi, Kanada,  þar sem einu minjarnar um norræna menn á meginlandi N-Ameríku hafa fundist. Til New York kom skipið 5. október eftir ríflega þriggja mánaða siglingu frá Íslandi.

Sigling Íslendings vestur um haf og koma skipsins til hafnar í New York vakti mikla athygli og sjónvarpsstöðvar sýndu myndskeið frá viðkomustöðum skipsins. 

Eftir komu skipsins til Bandaríkjanna var skipið var í nokkur misseri í geymslu í Westbrook í Connecticut-fylki. Um hríð var nokkur reikistefna um örlög þess. Í júlí 2002 var kynnt samkomulag nokkurra aðila á Suðurnesjum, undir forystu Reykjanesbæjar, um kaup á skipinu sem í kjölfarið var flutt heim til Íslands á haustmánuðum þetta sama ár. Fyrstu árin eftir það var skipið á ýmsum stöðum í Njarðvík en komst undir þak í nýbyggðum Víkingaheimum á Njarðvíkurfitjum á haustdögum 2008.

Skipinu hefur nú verið komið fyrir á súlum, sem bera það einn og hálfan metra upp í loftið. Það gerir fólki kleift að ganga undir það og njóta þeirrar miklu völundarsmíðar sem skipið er.

Skipstjórinn

Eftirafarandi viðtal við Gunnar Marel Eggertsson, skipstjóra og skipasmið, birtist í Morgunblaðinu 16. júní 2000.

VÍKINGASKIPIÐ Íslendingur mun á þjóðhátíðardaginn 17. júní leggja upp í langferð til landsins víðfeðma í Vesturheimi. Ferðin er að sjálfsögðu farin í tilefni þess að í ár eru þúsund ár liðin frá því að fyrstu Evrópubúarnir, íslenskir víkingar, sigldu á skipum sínum til Vesturheims og fundu landið sem öldum síðar fékk heitið Ameríka. Upphaf siglingar Íslendings verður án efa einn af hápunktum 17. júní-hátíðarhaldanna í Reykjavík, en hann mun láta úr höfn um kl. 15.30 og hefja þar með siglinguna sem farin er til að fagna þúsund ára afmæli landafunda Leifs Eiríkssonar hins heppna.

Engin lognmolla eða meðalmennska

Segja má að það sé ekki beinlínis hversdagsleg hugmynd að láta sér detta það í hug að smíða víkingaskip til að sigla á til Ameríku, enda má öllum ljóst vera að þar sem Gunnar Marel Eggertsson, skipasmiður og skipstjóri Íslendings, fer ríkir engin lognmolla eða meðalmennska. Gunnar er af frægri ætt skipasmiða í Vestmannaeyjum og var sjálfur orðinn meistari í skipasmíðum einungis 25 ára gamall.

"Ég ólst upp í Vestmannaeyjum," segir Gunnar, "með Atlantshafið fyrir framan mig og allar umræður á heimilinu snerust bara um báta og sjómennsku."
Upphaf þess að hugmyndin um siglingu Íslendings kom upp rekur Gunnar til þess er hann var 10 ára gamall og heyrði þá afa sinn ræða við blaðamann um skipasmíðar. "Það spannst einhvern veginn út frá umræðum þeirra, að afi fór að segja blaðamanninum hvað víkingaskipin hefðu verið góð skip og hraðskreið og hvað menn hefðu kunnað mikið fyrir sér fyrir þúsund árum. Við værum í sjálfu sér ekki komin mikið framar en menn voru komnir þá." Gunnar segir að þessi litla frásögn hafi kveikt í sér einhvern neista sem í raun hafi aldrei slokknað. Hann hafi síðan dreymt um að sigla á víkingaskipi yfir hafið.

Gauksstaðaskipið fyrirmynd

Víkingaskipið Íslendingur var smíðað á árunum 1994-1996 og var Gunnar Marel sjálfur yfirsmiður og reyndar mikið til eini smiðurinn. Tilurð skipsins má þó óbeint rekja allt til ársins 1882, en þá grófu fornleifafræðingar í Noregi hið fræga Gaukstaðaskip úr jörðu. Íslendingur er einmitt smíðaður með Gaukstaðaskipið sem fyrirmynd, en í því skipi telur Gunnar að hið háþróaða verkvit og tæknikunnátta skipasmiða á víkingatímanum rísi hvað hæst, miðað við þau skip sem fundist hafa. Eins og kunnugt er hafa víkingaskipin löngum verið flokkuð í tvo flokka, knörr og langskip, þar sem knörrinn var fremur hægfara þungaflutningaskip en langskipið liprara og hraðskreiðara og hentugra til hernaðar. Gunnar segir að Íslendingur myndi teljast til langskipa, en þó telji margir fræðimenn að fyrirmyndin, Gaukstaðaskipið, hafi verið eins konar tilraun til að sameina kosti beggja, stöðugleika knarrarins og hraða og lipurð langskipsins. Útkoman er sú, að Íslendingur hefur sannað sig sem hraðskreitt og einstaklega stöðugt hafskip.

Frá Gaiu til Íslendings

Árið 1991 var Gunnar Marel annar yfrmaður á norska víkingaskipinu Gaiu, sem það ár sigldi frá Noregi til Washingtonborgar í Bandaríkjunum og síðar frá Washington til Rio de Janeiro og upp Amasonfljótið inn í miðja Suður-Ameríku. Aðspurður sagði Gunnar að Gaia og Íslendingur væru um margt lík, enda bæði smíðuð með Gaukstaðaskipið sem fyrirmynd, en þó væri Íslendingur frábrugðinn Gaiu í veigamiklum atriðum. Þar réði mestu að Gaia var smíðuð algerlega eftir tilbúnum teikningum frá safninu, þar sem Gaukstaðaskipið er varðveitt, en þær segir Gunnar að séu ekki alveg kórréttar. "Mesti munurinn er sá," segir Gunnar, "að kjölurinn í þeirri teikningu er allt of beinn og þess vegna vantar allan styrk í hann. Þetta vissi ég áður en ég byrjaði á Íslendingi og fór þess vegna á safnið þar sem Gaukstaðaskipið er varðveitt og bað um leyfi til að fara inn fyrir keðjuna umhverfis skipið og bregða máli á kjölinn. Safnstjórinn var eitthvað tregur til, en ég gerðist svo djarfur, þegar lítið bar á, að bregða mér inn fyrir keðjuna og ná þeim grundvallarmálum sem mér fannst vanta. Þess vegna er Íslendingur eins og hann er í dag. Ég þakka það eingöngu því að hafa stokkið þarna inn fyrir eitt augnablik, eiginlega í óleyfi, að Íslendingur er í dag talinn vera besta eftirlíking sem gerð hefur verið af Gaukstaðaskipinu." Þó segir Gunnar að Íslendingur sé fjarri því að vera nákvæmlega eins og Gaukstaðaskipið. Mjög erfitt sé að ná þeim snilldartöktum sem hafi verið viðhafðir þar. Íslendingur sé hins vegar það besta sem honum og félögum hans var unnt að smíða, og nú verði að láta á það reyna hvort það verði nógu gott.

Siglingaleiðin ekki auðveld viðfangs

Síðasti viðkomustaður víkingaskipsins áður en það leggur á hafið í átt til Grænlands verður Búðardalur, næsta höfn við Eiríksstaði í Haukadal, þar sem Leifur Eiríksson er talinn hafa fæðst. Við gerð ferðaáætlunar þótti það tilhlýðilegt að ferðin frá Íslandi hæfist þar til að votta þeim feðgum, Eiríki og Leifi, tilhlýðilega virðingu með því að sigla sem næst kjölfari þeirra.

Aðspurður sagði Gunnar að siglingaleiðin frá Íslandi til Grænlands og síðan Ameríku væri fjarri því að vera sú auðveldasta í heimi og þessa leið yrði aldrei auðvelt að sigla á víkingaskipi. Vegna þessa hefur tímaáætlun ferðarinnar verið höfð vel rúm og áætlaður tími á milli hafna allt að helmingi lengri en tekur að sigla við bestu aðstæður. Á þessum slóðum má alltaf búast við vályndum veðrum, en Gunnar segir að óþarfi sé að velta sér upp úr slíku fyrir fram. Á því verði einfaldlega tekið þegar þar að kemur. Skipið er vel mannað, flestir áhafnarmeðlima hafa þekkst frá uppvaxtarárum í Vestmannaeyjum og hafa reynt ýmislegt saman. "Við þekkjum hver annan út og inn og getum skammast og rifist án þess að það valdi nokkrum skaða."

Fengu skildi að gjöf frá Iðnskólanemum

Nemendur úr Iðnskólanum í Hafnarfirði stóðu fyrir samnorrænu sjálfboðaverkefni til að smíða 64 skildi og færðu þeir Gunnari Marel skildina að gjöf nú í maí. Skildirnir eru smíðaðir í anda smíðavinnu víkinganna, úr 8mm þykkum furuspjöldum. Ástæðan fyrir fjölda skjaldanna er sú, að á skipum sem þessu voru yfirleitt 65-70 manns í áhöfn, og þar af voru 64 sem mynduðu tvö ræðarateymi. 32 menn þurfti til að róa skipinu í einu og var því nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti 64 um borð til afleysinga við róðurinn. Hvað skildina varðar, þá var meginhlutverk þeirra að sjálfsögðu að notast í bardögum, en þeir hafa einnig gegnt því mikilvæga hlutverki að mynda skjól fyrir áhöfnina á siglingum. Ekki hefur veitt af, því að öllum líkindum hefur oft verið næðingssamt að sigla á opnum tréskipum úti á reginhafi.

Í áhöfn Íslendings nú eru ekki 64, heldur einungis 9 manns og einnig tveir hrafnar sem áhöfnin hefur hænt að sér. Í stað ræðaranna koma tveir mótorar sem taka öllu minna pláss en 64 skipverjar. Ekki mun þó vera hægt að sigla skipinu mikið fyrir vélarafli, heldur verður nær eingöngu siglt fyrir seglum á leiðinni milli hafna. Vélaraflið verður eingöngu notað þegar brýnasta þörf krefur og þá í mjög stuttan tíma í einu, þar sem skipið þolir einfaldlega ekki að þeir séu keyrðir of mikið. Ekki eru þó árarnar alveg skildar eftir heima. Nokkrar slíkar eru hafðar með í för því ætlunin er að róa skipinu síðasta spölinn að landi á nokkrum viðkomustaða Íslendings á leiðinni löngu til Vínlands.