Landnám á Íslandi

Merkar fornleifar af Suðurnesjum. Minjar um elstu byggð á Reykjanesi, frá Vogi í Höfnum og Hafurbjarnarstöðum á Miðnesi.

VOGUR Í HÖFNUM, STAÐUR EÐA STÖÐ?
Árið  2002 fundust rústir af skála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og var greinilega um afar forna rúst að ræða. Var hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar, landnámsmanns í Höfnum sem var langafi Bjarna Herjólfssonar siglingakappa? Talið hefur verið að Bjarni hafi ásamt áhöfn sinni verið fyrstir Evrópubúa til að líta augum meginland Norður Ameríku.

Vorið 2009  hóf Byggðasafn Reykjanesbæjar, í samvinnu við Dr. Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing, fornleifarannsóknir á svæðinu og lauk þeim að mestu árið 2012. Þá hafði skálinn verið grafinn upp og staðfest að um 9. aldar skála væri að ræða. Landnám Íslands hefur verið tímasett í kringum árið 870. Getgátur eru uppi um að þessi bústaður sé enn eldri og hafi þá verið útstöð fremur bændabýli. Það sem rennir stoðum undir þessa tilgátu er að útihús hafa ekki fundist, þrátt fyrir ítrekaða leit, en venja er að þau finnist í nágrenni bændabýla. Ef rétt reynist, að þetta hafi verið útstöð landkönnuða og ævintýramanna þá er líklegt að þeir hafi notað byggingarnar hluta úr ári sem miðstöð til að nýta auðlindir og kanna landið.

Á þessum tímum var mikil hreyfing á fólki og það ferðaðist um Norðurslóðir  í leit að búsældarlegum löndum og skjótfengnum gróða. Á Reykjanesinu á sumrin var gnægð matar, fuglar í björgum, selir og fiskur í sjó og vötnum, í fjörum mátti finna rekavið og hræ af hvölum. Sérstaklega hafa menn leitað að tönnum úr rostungum og hvölum sem voru afar verðmætar, enda oft kallaðar fílabein norðursins eða hvíta gullið. Þær voru notaðar til að smíða margvíslega dýrgripi.

Á sýningunni má sjá ýmsa gripi sem fundist hafa við uppgröftinn auk yfirlitsmynda af svæðinu og skýringar. Gripirnir eru allir í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

HAFURBJARNARSTAÐAKUMLIÐ